Alls hækkaði hlutabréfaverð tíu félaga og fimm félög lækkuðu í 3,6 milljarða veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,7% sem skýrist að mestu leyti af 1,8% lækkun Marels. Gengi félagsins stendur nú í 852 krónum á hlut og hefur lækkað um 12,4% frá lok ágústmánaðar þegar það náði sínu hæstu hæðum frá skráningu í 973 krónum.

Síminn hækkaði um 2,8%, mest allra félaga í Kauphöllinni, í 715 milljóna veltu, sem var sömuleiðis mesta veltan á íslenska hlutabréfamarkaðnum í dag.

Hlutabréfaverð VÍS hækkaði næst mest eða um 2,6%, stendur nú í 19,5 krónum á hlut og hefur aldrei verið hærra. Gengi Sjóvá er einnig í sínum hæstu hæðum í 38,7 krónum á hlut. Dagslokagengi Kviku fór í fyrsta sinn yfir 26 krónur á hlut og þá heldur gengi Arion áfram að hækka og er nú komið í 187 krónur.