Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi lækkaði um 1,23%, í 2.090,98 stig, í 3,6 milljarða króna heildarveltu á aðalmarkaði í dag.

Mest hækkun var á gengi bréfa Eimskipafélags Íslands, sem hækkaði um 2,64%, í 261 milljóna króna viðskiptum, og fór gengi bréfa skipafélagsins í 175,0 krónur. Icelandair hækkaði næst mest, eða um 1,56%, í 7,82 krónur, í 81 milljóna króna viðskiptum.

Hækkun Reginn var síðan sú þriðja mesta, eða um 1,40%, í 21,80 krónur, en viðskiptin með bréf félagsins voru jafnframt þau næst mestu með eitt félag í kauphöllinni í dag, eða fyrir 446,7 milljónir króna.

Mestu viðskiptin voru hins vegar með bréf Marel, eða fyrir 936,8 milljónir króna, en gengi bréfa félagsins lækkaði um 1,97% og fór það niður fyrir 600 krónurnar, eða í 596,0 krónur. Það var jafnframt þriðja mesta lækkunin í dag.

Mesta lækkunin var hins vegar með bréf VÍS og sú næstmesta með bréf Sjóvá. Vís lækkaði um 3,16%, í 134 milljóna króna viðskiptum og endaði í 11,04 krónur. Sjóvá lækkaði um 2,45, niður í 17,95 krónur, í 162 milljóna króna viðskiptum.

Gengi krónunnar styrktist gagnvart hinum norðurlandakrónunum, en veiktist gagnvart Bandaríkjadal, breska pundinu, japanska jeninu og svissneska frankanum. Evran stóð hins vegar í stað.