Úrvalsvísitalan OMX lækkaði um 1,3% í 2,6 milljarða króna veltu Kauphallarinnar í dag. Úrvalsvísitalan, sem stendur nú í 2.866 stigum, hefur lækkað um 5% á tveimur vikum, þegar hún fór upp fyrir 3.000 stig í fyrsta sinn.

Marel lækkaði mest allra félaga eða um 1,6% í 267 milljóna króna viðskiptum en gengi félagsins endaði daginn í 878 krónum á hlut. Hlutabréfaverð Marel hefur nú lækkað um 6% á tæpum tveimur vikum, þegar þau náðu sínu hæsta gengi í 935 krónum.

Icelandair hækkaði mest í dag eða um 2,9% í 107 milljóna króna veltu en gengi flugfélagsins stendur nú í 1,42 krónum á hlut. Hlutabréfaverð Icelandair hefur því náð sér að fullu eftir 6% lækkun stuttu fyrir lokun Kauphallarinnar á miðvikudaginn eða um það leyti sem fréttir bárust af mögulegu gosi á Reykjanesskaganum.

Mesta veltan var með hlutabréf Kviku banka sem lækkuðu um 0,1% í 674 milljóna króna viðskiptum. Hlutabréfaverð Kviku hefur hækkað um 9,7% í ár.