*

þriðjudagur, 28. september 2021
Innlent 16. júní 2021 16:39

Marel lækkar um 3%

Þrátt fyrir lækkun dagsins hefur gengi Marels hækkað um 12% frá síðustu áramótum.

Ritstjórn
Kauphöllin, Nasdaq

Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,7% í 4,3 milljarða króna veltu á hlutabréfamarkaði Kauphallarinnar í dag. Það skýrist einkum af 3% lækkun á gengi Marels sem er stærsta félag Kauphallarinnar. Marel hefur þó hækkað um 12% í ár og um 31% á ársgrundvelli þrátt fyrir lækkunina í dag.

Mesta veltan var með hlutabréf Símans sem stóðu óbreytt í 10,75 krónum á hlut. Gengi fjarskiptafélagsins náði sínum hæstu hæðum í gær en félagið hefur hækkað um 35% frá síðustu áramótum og um 82% á einu ári.

Næst mesta veltan var hjá Arion banka sem lækkaði um 0,8% í 593 milljóna króna viðskiptum. Í gær náði gengi bankans þó sínu hæsta gengi frá skráningu í Kauphöllina árið 2018 en Arion hækkaði alls um 8,8% á meðan hlutafjárútboð Íslandsbanka, sem lauk í gær, stóð yfir.

Sjá einnig: 486 milljarða áskriftir í útboðinu

Gengi Icelandair hélt áfram að falla og stendur nú í 1,36 krónum á hlut. Flugfélagið lækkaði um 1,8% í dag og hefur nú lækkað um 18% á rúmum þremur vikum.