*

föstudagur, 14. ágúst 2020
Innlent 25. júní 2020 16:52

Marel lækkar um 3,7%

Arion banki heldur áfram að hækka en bréf bankans hafa hækkað um 17,6% frá því á mánudaginn í síðustu viku.

Ritstjórn
Kauphöllin, Nasdaq.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 2,04% í 1,7 milljarða króna veltu Kauphallarinnar í dag en 12 af 20 félögum hennar lækkuðu. Íslenska krónan styrktist gagnvart öllum helstu gjaldmiðlum heims í dag. 

Marel lækkaði mest allra félaga eða um 3,66% í 693 milljóna króna viðskiptum en bréfin stóðu í 710 krónum við lok markaða. Gengi Marels náði sínu hæsta stigi í 737 krónum í gær.   

Fyrirtækin Brim og Eimskip lækkuðu bæði í dag. Brim lækkaði um 1,38% í 59 milljóna veltu og Eimskip lækkaði um 2,14% í 5 milljóna króna viðskiptum. 

Síminn hækkaði mest allra félaga eða um 1% í 60 milljóna króna viðskiptum og standa bréfin nú í 6,02 krónum á hlut. Félagið hefur hækkað um tæp 28% á síðustu þremur mánuðum.

Arion banki hélt áfram að hækka en bréf bankans hækkuðu um 0,57% í 115 milljóna króna veltu og standa nú í 70,7 krónum á hlut. Gengi Arion hefur nú hækkað um 17,6% frá því á mánudaginn í síðustu viku.

Iceland Seafood hækkaði um 0,46% í dag og stóðu bréf félagsins í 8,8 krónum við lokun Kauphallarinnar. Gengi bréfanna hefur nú hækkað um 19% frá því byrjun maí. VÍS hækkaði einnig um 0,37% í 94 milljóna króna veltu en bréf tryggingafélagsins hafa hækkað um 10,4% frá því í byrjun síðustu viku. 

Stikkorð: Nasdaq Kauphöllin