Úrvalsvísitala Kauphallarinnar hækkaði um tvö prósent í 3,9 milljarða króna veltu í dag. Marel hækkaði mest allra félaga eða um 2,6% í 556 milljóna króna viðskiptum.

Gengi Marel hafði lækkað um 11% á rúmum mánuði frá því að það náði hámarki í 935 krónum á hlut þann 18. febrúar síðastliðinn. Lokagengi Marel í dag var 868 krónur á hlut sem er samt 10% hækkun frá áramótum.

Kvika banki hækkaði næst mest eða um 2,3% í 527 milljóna króna viðskiptum. Hlutabréf bankans hafa hækkað um 166% á ársgrundvelli. Stefnt er að sameina bankann og TM en hlutabréfaverð vátryggingafélagsins stóð óbreytt í 127 milljóna króna veltu í dag.

Mesta veltan var með bréf Símans sem hækkuðu um 1,2% í 748 milljóna króna viðskiptum. Hlutabréfaverð fjarskiptafélagsins stóð í 10,10 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar í dag, en lokagengi félagsins hefur aldrei verið hærra.

Einungis tvö félög lækkuðu í viðskiptum dagsins. Icelandair lækkaði um 2,2% í 103 milljóna króna veltu. og Brim lækkaði um 1,8% í 50 milljóna króna veltu