Mikil lækkun á hrávörumörkuðum á undanförnum vikum munu hafa jákvæð áhrif á Marel, að því er fram kemur í uppgjörsgögnum. Bæði beint í gegnum lækkun á framleiðslukostnaði vegna lækkunnar á ryðfríu stáli og óbeint með lækkun á kornverði sem bætir rekstrarafkomu viðskiptavina fyrirtækisins, segir í uppgjörsfrétt fyrirtækisins.

Afkoma Marels á þriðja ársfjórðungi var í takt við væntingar fyrirtækisins, samkvæmt uppgjörsgögnum, en reiknað var með að hún myndi batna þegar liði á árið. Marel hagnaðist um 4,5 milljónir evra á þriðja fjórðungi samanborið 5,8 milljóna evra tap á sama tíma fyrir ári. Salan jókst um 158,1% á milli ára. Hún nam 170,6 milljónum evra á fjórðungnum. Á fyrstu níu mánuðum ársins nemur arðsemi eigin fjár 8,4% samanborið við 2,4% á sama tíma fyrir ári. Eiginfjárhlutfallið nemur 32,5% samanborið við 38,5% á sama tíma fyrir ári.

Í ljósi þrenginganna á fjármálamörkuðum stóð félagið fyrir lokuðu hlutafjárútboði sem lauk 16. október síðastliðinn Tilgangurinn með útboðinu var að styrkja fjárhag félagsins enn frekar og auka viðskipti með hlutabréf þess. Safnað var 10 milljónum evra.Tilboð voru að stærstum hluta frá lífeyrissjóðum.

Síðastliðin rúm tvö ár hafa markast af hröðum ytri vexti en á síðustu tveimur ársfjórðungum hefur áherslan beinst að innri vexti og auknum hagnaði. Samþætting og endurskipulagning þeirra fyrirtækja sem keypt voru gengur vel og er farin að skila þeirri hagræðingu sem stefnt var að, segir í uppgjörsgögnum.