„Við erum með fimm félög sem við erum að sameina. Og við sögðum að leiðarvísirinn væri að sameina allar deildir sem væru að sinna sömu viðskiptaþörf og byggðu á sömu grunntækni,“ segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, í viðtali við Markaðinn á Fréttablaðinu.

Þar kemur jafnframt fram að Marel ætli á tveimur árum að ná sparnaði sem nemi 25 milljónum evra eða fjórum milljörðum íslenskra króna. Fyrirtækið hafi ráðist í ýmsar hagræðingaraðgerðir með tilfærslu á starfsemi og uppsögnum. Þannig sagði fyrirtækið upp 75 starfsmönnum á fyrsta ársfjórðungi, þar af 35 millistjórnendum. Segir Árni að gamla skipulag fyrirtækisins hafi verið tekið úr gildi.

„Hins vegar er aðalatriðið að auka sölutekjur og auka verðmætið í sölutekjum. Mikilvægt er að allt fyrirtækið vinni sem ein heild, til að mynda að hönnunarvinnan sé þvert á fyrirtækið og vinni mjög náið með framleiðslustýringunni og sölustýringunni,“ segir Árni Oddur.