*

laugardagur, 31. október 2020
Innlent 26. ágúst 2020 17:38

Marel og Arion leiða hækkun dagsins

Hlutabréf Icelandair nálgast það gengi sem fyrirhugað hlutafjárútboð félagsins á að fara fram á.

Ritstjórn

Úrvalsvísitala OMXI10 hækkaði um 1,06% í viðskiptum dagsins og stendur í 2.094 punktum. Heildarviðskipti dagsins námu 1,2 milljörðum króna í 66 viðskiptum. Mest hækkuðu hlutabréf Marels um 1,64% í mestum viðskiptum dagsins sem námu 290 milljónum króna. Bréfin standa nú í um 715 krónum og hafa þau hækkað um 16,4% það sem af er ári.

Næst mest hækkun var á bréfum Arion banka um 1,29% í næst mestum viðskiptum sem námu 228 milljónum króna. Bréf bankans hafa lækkað um 19,12% það sem af er ári. 

Mest lækkuðu hlutabréf Icelandair um 4,35% í þriggja milljóna króna veltu og standa þau nú í 1,1 krónu hvert. Fyrirhugað hlutafjárútboð mun eiga sér stað á genginu ein króna á hlut. Næst mest lækkuðu bréf Iceland Seafood um 2,02% og standa bréf félagsins nú í 8,23 krónum. Þau hafa lækkað um ríflega 15% á þessu ári.

Krónan lækkar enn

Gengi íslensku krónunnar lækkaði gagnvart öllum sínum helstu viðskiptamyntum í dag. Meðal annars lækkaði krónan gagnvart breska pundinu um 0,67% og fæst það nú á tæplega 183 krónur. Evran fæst á tæplega 164 krónur og lækkaði krónan gagnvart evrunni um 0,18% í dag.

Sjá einnig: Ásgeir: Gjaldeyrisstefna SB er skýr

Talsverð umfjöllun hefur verið um gjaldeyrisinngrip Seðlabankans. Ásgeir Jónsson sagði á fundi peningastefnunefndar fyrr í dag að bankinn hafi selt gjaldeyri fyrir 66 milljónir evra í síðustu viku, andvirði 10,8 milljarða króna. Nettó gjaldeyrissala bankans á þessu ári hefur numið 200 milljónum evra, andvirði 29 milljarða króna eða um 3% af gjaldeyrisforðanum.

 

Stikkorð: Marel Icelandair Arion OMXI10 gengi krónunnar