*

laugardagur, 6. júní 2020
Innlent 29. ágúst 2019 16:15

Marel og Icelandair í mestri veltu

Brim hækkaði mest í viðskiptum dagsins, en bréf Icelandair lækkuðu á ný eftir hækkanir gærdagsins.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi lækkaði um 0,32% , niður í 1.992,52 stig, en heildarviðskiptin námu 1,8 milljarði króna. Gengi bréfa Brim, sem áður hét HB Grandi, hækkaði mest, eða um 1,97%, í 101 milljóna króna viðskiptum og er gengi bréfanna nú 36,30 krónur.

Næst mest hækkun var á gengi bréfa Kviku banka, eða um 1,43% í 45 milljóna króna viðskiptum. Fór gengið upp í 10,65 krónur hvert bréf.

Þriðja mesta hækkunin var á bréfum fasteignafélagsins Eik, sem nam 1,29% í 208 milljóna króna viðskiptum og fóru þau upp í 7,85 krónur. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær var viðsnúningur í rekstri félagsins milli ára.

Athygli vekur að engin viðskipti voru með bréf Sýnar, sem stóðu þar með í stað í 27,55 krónum, en forstjórinn sagði þegar félagið birti uppgjör sitt eftir lokun markaða í gær að áætlanir hefðu engan veginn staðist.

Icelandair lækkar aftur eftir að fréttir um milljónaviðskipti voru leiðréttar

Mesta veltan var með bréf Marel, eða fyrir 309 milljóna króna, en bréfin lækkuðu um 0,17% niður í 580,0 krónur.

Næst mest velta var með bréf Icelandair, sem lækkaði um 1,0% í 253 milljóna króna veltu og endaði í 6,93 krónum. Líkt og kom fram í Viðskiptablaðinu fyrr í dag voru fréttir um að varaformaður stjórnar félagsins frá í gær þess efnis að hann hefði bætt við sig fyrir 77 milljónir rangar. Gengi bréfanna hækkaði í gær um 2% eftir viðskipti Ómars Benediktssonar, en hafa lækkað aftur í dag.

Skeljungur lækkaði mest sama dag og forstjórinn kaupir

Mest lækkun var hins vegar á gengi bréfa Skeljungs, eða 2,48% í 113 milljóna króna viðskiptum og fóru þau niður í 7,88 krónur. Fyrr í dag bárust fréttir af því að nýr forstjóri hefði keypt fyrir 16 milljónir í félaginu. Næst mest lækkun var á gengi bréfa Origo, eða fyrir 2,04%, í smávægilegum viðskiptum eða fyrir 13 milljónir króna og fóru bréfin í 24,0 krónur.

Þriðja mesta lækkunin var hjá Festi, sem kom með uppgjör eftir lokun markaða í gær, en lækkunin nam 2,02%, niður í  121,0 krónur í 249 milljóna króna viðskiptum. Á First North markaðnum lækkaði gengi eins félags, Icelandic Seafood, sem einnig kom með uppgjör í lok viðskiptadags í gær. Nam lækkunin 0,63% í 84 milljóna króna viðskiptum.

Gengi krónunnar styrktist gagnvart tveim af helstu viðskiptamyntum sínum, annars vegar japanska jeninu og hins vegar norskri krónu. Styrking Bandaríkjadals og evru gagnvart krónunni var þó mun meiri, dalurinn um 0,45% og fæst hann nú á 124,62 krónur og evran um 0,29% í 137,84 krónur. Breska sterlingspundið hækkaði um 0,16% í 151,99 krónur.

Stikkorð: Marel Icelandair Skeljungur HB Grandi Brim Nasdaq Kauphöllin Festi Kvika