Marel Food Systems hefur opnað nýtt 9,500 fermetra framleiðsluhúsnæði í Nitra, Slóvakíu, sem styrkir verulega framleiðslugetu fyrirtækisins. Nú þegar starfa um það bil 120 manns á vegum Marel Food Systems í Nitra en gert er ráð fyrir að starfsmönnum fjölgi í 300 þegar framleiðslan nær hámarki.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Þá kemur fram að í Nitra eru einkum framleiddir staðlaðir íhlutir í þann hátæknibúnað sem Marel Food Systems framleiðir til vinnslu á matvælum, en eftir kaupin á hollenska fyrirtækinu Stork Food Systems nýverið er Marel Food Systems orðið að leiðandi framleiðanda í þeim iðnaði á heimsvísu.

Viðskiptaráðherrar Íslands og Slóvakíu – þeir Björgvin G. Sigurðsson og Lubomír Jahnátek – opnuðu húsnæðið, ásamt Herði Arnarsyni, forstjóra Marel Food Systems, við hátíðlega athöfn föstudaginn 27. júní s.l.

Framleiðslusvæðið sjálft er u.þ.b. 6,400 fermetrar að flatarmáli en auk þess er skrifstofuhúsnæði um 1,035 fermetrar að stærð. Lóðin sem húsnæðið stendur á er um 40,000 fermetrar að flatarmáli og eru því nægt rými til að stækka verksmiðjuna ef þörf þykir í framtíðinni.

Fram kemur í tilkynningunni að Nitra, sem stendur við rætur fjallsins Zobor í vestur Slóvakíu, er ein elsta borg landsins og sú fimmta stærsta en þar búa um 85,000 manns. Héraðið er eitt það þróaðasta í Slóvakíu og starfa um 40% íbúanna við iðnað.

„Marel Food Systems hóf starfsemi í Slóvakíu í ágúst 2005 en framleiðslan fór þá fram í leiguhúsnæði. Auk þess að styrkja framleiðslugetu fyrirtækisins, veitir nýja húsnæðið fyrirtækinu greiðari aðgang að nýjum mörkuðum í mið- og austur-Evrópu,“ segir í tilkynningunni.