Marel opnar nýtt sýningarhús í Kaupmannahöfn í dag. Húsið, sem heitir Progress Point, verður notað fyrir vörusýningar, fundi með viðskiptavinum og þjálfun starfsfólks.  Í Progress Point munu viðskiptavinir Marel fá tækifæri til að kynnast frá fyrstu hendi hvernig tæki, kerfi og lausnir Marel geta nýst þeim við framleiðslu sína.

Sérhönnuð sýningarrými
Progress Point  er  alls 2.700 fermetrar að stærð og skipað sýningarrýmum, fundarherbergjum, ráðstefnusal, eldhúsi og fjölda smærri og stærri rýma sem hægt er að nota í margvíslegum tilgangi.  Í húsinu verður hægt að halda vörusýningar stórar og smáar, viðburði af ýmsum toga og þjálfa starfsfólk Marel. „Sýningarsvæðið í Progress Point er blautrými og einnig er hægt að kæla rýmið niður til að skapa sömu aðstæður og er að finna í raunverulegum vinnslurýmum sem auðveldar  ferlið við að finna bestu lausnina fyrir viðskiptavini hverju sinni,“ segir í tilkynningu frá Marel.

Miðlægð staðsetning
Progress Point er í 5 mínutna fjarlægð frá Kastrup flugvelli. Staðsetningin gerir það að verkum að mögulegt er fyrir marga af viðskiptavinum Marel að heimsækja Progress Point að morgni og komast heim að kvöldi sama dags.