Hluthafafundur var haldinn í Marel síðdegis í gær, en þar var tilkynnt að Marel, eða öllu heldur Eignarhaldsfélagið LME ehf. (Landsbankinn, Marel, Eyrir) hefur aukið hlut sinn í Stork úr 16,9% í tæp 19,5%. Einnig var samþykkt á fundinum heimild til hlutafjáraukningar.

Árni Oddur Þórðarson, stjórnarformaður Marels, segir að markaðsvirði hlutar LME í Stork sé nálægt 300 milljónum evra og félagið sé orðið stærsti einstaki hluthafinn í Stork.

"Hlutur Marels í því dæmi er um 60 milljónir evra. Það kom einnig fram á fundinum að við munum segja nei við Candover tilboði ef það verður lagt fram sem ekki hefur verið gert formlega." Segir Árni að sú neitun verði gerð á þeim grunni að Stork sé meira virði en sem nemur 47 evrum á hlut.

Árni segir að Marel sé búið að eiga 8 ára mjög gott samstarf við Stork en viðræður hafi verið í gangi milli félaganna í um 19 mánaða skeið og að þær hafi hafist í desember 2005. Í framhaldinu hafi verið Stork verið gert tilboð í Stork Food Systems.

Árni segir að hluthafar hafi verið upplýstir um að nú verði talað við alla hlutaðeigandi, bæði stjórn Stork og þá sem lýst hafi áhuga á félaginu eins og Candover sem og aðra hluthafa um framtíð Stork.

"Við höfum getu til 400 milljóna fjárfestingu með núverandi fjárhagsstyrk. Við óskuðum eftir samþykkt á hlutafjáraukningu upp á 100 milljónir að nafnvirði sem gæfi þá samtals rúmlega 100 milljónir evra." Árni segir að ef farið yrði í hlutafjárútboð þá væru allar líkur á að núverandi hluthafar myndu þó njóta þess.