Hagnaður Marels á síðasta ári nam 110,1 milljónum evra (rúmlega 15 milljörðum íslenskra króna), en árið 2018 nam hagnaðurinn 122,5 milljónum evra. Félagið greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

Pantanir námu 1.222,1 milljónum evra (2018: 1.184,1m) og tekjur námu 1.283,7 milljónum evra (2018: 1.197,9m). EBIT nam 173,4 milljónum evra (2018: 175,2m), sem var 13,5% af tekjum (2018: 14,6%). Hagnaður á hlut (EPS) var 15,33 evru sent (2018: 17,95 evru sent) og handbært fé frá rekstri nam 189,8 milljónum evra (2018: 205,8m). Skuldahlutfall (nettó skuldir/EBITDA) var x0,4 í lok árs (2018: x2,0). Markmið félagsins um fjármagnsskipan er að halda skuldahlutfalli milli x2-3. Pantanabókin stóð í 414,4 milljónum evra við lok árs (2018: 476,0m).

Á fjórða ársfjórðungi 2019 hagnaðist Marel um 10,2 milljónir evra (4F18: 38,0m). Tekjur námu 320,1 milljónum evra (4F18: 330,8m) og EBIT nam 32,0 milljónum evra (4F18: 48,2m), sem var 10,0% af tekjum (4F18: 14,6%). Pantanir námu 302,6 milljónum evra (4F18: 296,0m) og handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 60,2 milljónum evra (4F18: 62,2m).

Samið um 700 milljónum evra langtímafjármögnun

„Marel hefur undirritað samning um nýja sambankalánalínu að fjárhæð 700 milljónum evra sem veitir félaginu aukinn rekstrarlegan sveigjanleika og styður við langtímavaxtarmarkmið félagsins. Með samningnum hefur Marel tryggt langtímafjármögnun fyrir félagið á hagstæðari kjörum en áður.

Vaxtakjör eru EURIBOR/LIBOR + 80 punktar og munu þau taka breytingum í samhengi við skuldsetningarhlutfall (e. leverage ratio ) félagsins og notkun lánalínunnar. Vaxtakjör nýja lánsins eru einnig tengd árangri Marel við að ná fram markmiðum um sjálfbærni, samkvæmt fyrirfram ákveðnum mælikvörðum á frammistöðu (e. key performance indicators ). Búast má við því að fjármögnunarkostnaður félagsins muni lækka til lengri tíma litið í ljósi hagstæðari lánakjara.

Þátttakendur í lánalínunni eru sjö leiðandi bankar á alþjóðlega vísu og eru það ABN AMRO, BNP Paribas, Danske Bank, HSBC, ING Bank, Rabobank and UniCredit sem taka þátt.  Þessir bankar falla vel að alþjóðlegri starfsemi Marel og eru vel í stakk búnir að styðja við starfsemi félagsins til lengri tíma litið," segir í tilkynningunni.

Fyrstu vikur 2020 gefi góð fyrirheit

„Tekjur ársins 2019 voru tæplega 1,3 milljarðar evra sem þýðir 7% tekjuvöxt frá fyrra ári, á meðan EBIT lækkaði örlítið á milli ára. Undanfarnir 18 mánuðir hafa verið býsna krefjandi þar sem markaðsaðstæður lituðust af umróti á heimsmörkuðum og viðskiptahindrunum. Stöðug nýsköpun og náið samstarf við viðskiptavini um heim allan hafa gert okkur kleift að halda áfram vegferð okkar að umbreyta matvælaframleiðslu.

Fyrstu vikur ársins 2020 gefa góð fyrirheit um framhaldið, einkum í kjúklingaiðnaði þar sem fjárfestingarþörf er augljóslega að aukast. Við áttum frábæra síðustu viku á IPPE kjúklinga- og kjötsýningunni í Atlanta í Bandaríkjunum. Þar frumsýndum við nokkrar tímamótalausnir sem munu auka sjálfvirkni og bæta nýtingu afurða sem framleiddar verða á öruggan og sjálfbæran hátt. Þessi sýning var ein sú allra besta og skilaði okkur pöntunum og fjölmörgum spennandi framtíðarverkefnum. Eitt slíkt er samningur okkar við Bell & Evans um hönnun og uppbyggingu á nýrri og byltingarkenndri hátækni kjúklingaverksmiðju í Bandaríkjunum.

Vegna breytinga í tekjusamsetningu milli vörutegunda og heimshluta á síðasta ári jókst kostnaður sem hafði áhrif á framlegð og rekstrarkostnað og leiddi til lægri rekstrarniðurstöðu á fjórða ársfjórðungi 2019. Við aukum nú framleiðslu skref fyrir skref og búumst við því að tekjur og rekstrarniðurstaða fari jafnt og þétt batnandi á árinu. Í ljósi fjárfestingar félagsins í innviðum og hugbúnaði erum við í góðri stöðu til að hagræða í framleiðslu og stoðsviðum á meðan við höldum áfram fjárfestingum í stafrænni vegferð og framlínu félagsins í sölu og þjónustu til viðskiptavina.

Heilt á litið var 2019 viðburðaríkt ár þar sem við styrktum grundvöll félagsins með fjárfestingum og aðgerðum í samræmi við stefnu félagsins. Vel heppnuð skráning hlutabréfa Marel í Euronext kauphöllinni í Amsterdam í júní, og ný langtímafjármögnun upp á 700 milljónir evra sem við tilkynnum um í dag, munu styðja vel við metnaðarfull vaxtar- og afkomuáform okkar fram til ársins 2026," er haft eftir Árna Oddi Þórðarsyni, forstjóra Marels í tilkynningunni.