Marel hefur komist að samkomulagi við fyrirtækið American Industrial Acquisition Corporation (AIAC) um sölu á rekstri Carnitech A/S í Stövring, Danmörku, einingu sem starfar utan kjarnastarfsemi Marel. AIAC er óskráð iðnaðarsamsteypa sem hefur það að langtímamarkmiði að byggja upp sterk fyrirtæki. Dótturfélag AIAC sem er kaupandi eignanna sem og skuldanna mun taka upp nafnið Carnitech.

"Undanskilin frá samningnum er fyrrum starfsemi Carnitech í laxaiðnaði og á sviði frystibúnaðar, sem og starfsemi Carnitech í Bandaríkjunum, sem er nú rekin undir merkjum og yfirstjórn Marel. Marel mun leggja niður noktun á Carnitech vörumerkinu á næstu 12 mánuðum.

Salan er mikilvægur liður í áætlun Marel um sölu eigna utan kjarnastarfsemi og mun félagið nú einbeita sér eingöngu að aukinni arðsemi og innri vexti í kjarnastarfsemi, en hún snýr að vinnslu á fiski, kjöti og kjúklingi, auk frekari vinnslu.

Kaupandinn tekur yfir eignir og skuldir tengdar rekstri Carnitech í Stövring en fasteignir félagsins í Stövring eru ekki innifaldar í samningnum. Samningsaðilar hafa gert langtíma leigusamning vegna húsnæðisins en kaupandinn fær forkaupsrétt að því. Bókfært tap á sölunni nemur 8 milljónum evra fyrir skatt, aðallega vegna afskrifta viðskiptavildar og endurmetinna eigna, og hefur verið tekið tillit til þess í ársreikningum fyrir 2009," segir í tilkynningu.

„Salan á Carnitech í Stövring, sem er síðasta stóra einingin utan kjarnastarfsemi, er mjög jákvætt skref fram á við fyrir Marel. Nú getum við snúið okkur alfarið að því að styrkja stöðu okkar sem markaðsleiðtogi í kjarnastarfsemi okkar. Ég er þess fullviss að Carnitech muni takast að treysta stöðu sína til framtíðar með nýjum eigendum eftir að hafa gengið í gegnum erfitt tímabil á árinu 2009," er haft eftir Theo Hoen, forstjóra Marel, í tilkynningu.