Hagnaður Marels á árinu 2012 nam 35,6 milljónum evra, andvirði um 6,1 milljarði króna, en var árið 2011 34,5 milljónir evra. Tekjur ársins námu 714,0 milljónum evra, sem er 6,8% aukning frá árinu á undan. EBITDA Marels árið 2012 nam 86,0 milljónum, sem er 12% af tekjum, en árið 2011 var EBITDA fyrirtækisins 87,0 milljónir evra.

Í tilkynningu segir að sjóðstreymi sé traust og lækkuðu nettó vaxtaberandi skuldir úr 250,5 milljónum evra árið 2011 í 243,3 milljónir evra í lok síðasta árs. Pantanabók stóð í 125,4 milljónum króna í árslok 2012 en voru á sama tíma 12 mánuðum fyrr 188,9 milljónum evra.

Þá kemur fram í tilkynningunni að tekjur ársins séu í samræmi við væntingar félagsins með 8,6% rekstarhagnað. Hann sé þó undir 10-12% langtímamarkmiði félagsins. Markaðir í Evrópu og Bandaríkjunum hafi verið krefjandi þar sem tafir voru á pöntunum á stöðluðum vörum sem gefa háa framlegð en á móti óx sala á stærri vinnslukerfum á nýmörkuðum áfram. Þess sé vænst að stærri verkefnin skili framtíðartekjum af stöðluðum vörum og tengdri þjónustu.

Haft er eftir Theo Hoen, forstjóra Marels, að gert sé ráð fyrir hóflegum vexti á fyrri helmingi þessa árs, en jafnframt að helstu markaðir félagsins muni rétta úr kútnum á seinni hluta ársins, sérstaklega Bandaríkin sem hafi verið í lægð síðustu tvö ár.

Tekjur á fjórða ársfjórðungi 2012 námu  178,4 milljónum evra, sem er 3% samdráttur samanborið við sama tímabil fyrir ári, en þá námu tekjur fyrirtækisins 183,9 milljónum evra. Hagnaður fyrirtækisins á fjórða ársfjórðungi nam 7,1 milljón evra, sem er töluverð lækkun frá árinu 2011, en þá nam hagnaður Marels 15 milljónum evra.