Forstjóraskipti, endurskipulagning og hagræðing í rekstri, þar á meðal fækkun starfa en á bilinu 50-60 starfsmönnum var sagt upp í Hollandi í júní, setti mark sitt á uppgjör Marel á öðrum ársfjórðungi. Greining Arion banka, sem mælir með því að fjárfestar bæti við sig í bréfum Marel, segir fyrirtækið hafa átt undir högg að sækja. Það skýrist að hluta af hægari vexti eftirspurnar en vænst var og miklum föstumkostnaði sem þolir illa lítinn eða engan tekjuvöxt.

Undir þetta tekur Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur í hlutabréfagreiningu hagfræðideildar Landsbankans. „Uppgjörið var ekki gott. Það tekur alltaf tíma hjá stórfyrirtæki í alþjóðlegum rekstri að skipta um stjórnendur og breyta því,“ segir hann og bendir á að gera megi ráð fyrir því að hagræðingin og skýrari rekstraráherslur muni hafa áhrif á Marel næstu misserin.

Sveinn telur Marel standa á tímamótum

Marel, sem hafi í gegnum tíðina staðið framarlega á sviði nýsköpunar í framleiðslu á matvinnsluvélum og tengdum tækjum, hafi stækkað mikið, ekki síst með kaupum á hollensku iðnsamsteypunni Stork á árunum 2007 til 2008. Samþætting fyrirtækjanna í kjölfarið og uppstokkun á rekstri Marel sé nauðsynleg. Slík vinna taki ætíð lengri tíma og sé erfiðari en búist var við í upphafi vegferðar. Það hafi m.a. skilað því í fyrrahaust að forstjóranum Theo Hoen var sagt upp og Árni Oddur Þórðarson, sem þá var stjórnarformaður í krafti næstum 30% eignarhlutar Eyris Invest , hafi tekið við stýrinu.

Nánar er fjallað um málið í Kauphallarblaðinu sem fylgdi Viðskiptablaðinu 11. september 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .