Hagnaður Marels á þriðja ársfjórðungi þessa árs nam 9,8 milljónum evra, andvirði um 1,5 milljarði króna, samanborið við tæplega sex milljóna evra hagnað á sama tímabili í fyrra. Á fyrstu níu mánuðum ársins nemur hagnaður félagsins 8,7 milljónum evra, en var 16,9 milljónir evra á fyrstu níu mánuðum síðasta árs.

Velta á þriðja fjórðungi jókst úr 156,9 milljónum evra í fyrra í 187,9 milljónir evra í ár. Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 29,7 milljónum evra á þriðja ársfjórðungi 2014, en var 3,0 milljónir evra á sama tíma í fyrra. Nettó vaxtaberandi skuldir í lok fjórðungsins námu 191,3 milljónum evra en voru 239,0 milljónir evra á sama tíma í fyrra.

Pantanabók stóð í 169,2 milljónum evra í lok þriðja ársfjórðungs 2014 samanborið við 156,4 milljónir evra í lok annars ársfjórðungs og 138,3 milljónir evra í lok þriðja ársfjórðungs í fyrra.

Í tilkynningu er haft eftir Árna Oddi Þórðarsyni, forstjóra Marels, að þriðji ársfjórðungur hafi verið góður fyrir félagið. „Við höfum skerpt á markaðssókn samhliða því að taka mikilvæg skref til að auka skilvirkni í rekstri. Sala og tekjur jukust um 20% á milli ára og rekstrarhagnaður hefur farið vaxandi.

Við höfum unnið að endurnýjun og stækkunum á verksmiðjum viðskiptavina okkar í Bandaríkjunum og Evrópu. Við höfum einnig aflað okkur nýrra viðskiptavina á vaxandi nýmörkuðum þar sem við höfum unnið að fjöldamörgum minni og meðalstórum uppbyggingarverkefnum í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku.“