Hagnaður Marels á þriðja ársfjórðungi nam 10,5 milljónum evra, andvirði ríflega 1,6 milljarðs króna, samanborið við 2,4 milljónir evra á sama tímabili í fyrra. Tekjur jukust um 13,1% milli ára og námu 169,1 milljónum evra. Í tilkynningu segir að stjóðsstreymi sé traust og nettó vaxtaberandi skuldir hafi numið 243,3 milljónum evra, en voru í fyrra 271,1 milljónir.

Heildartekjur fyrstu níu mánuði ársins námu 484,5 milljónum evra, sem er 16,9% aukning milli ára. Hagnaður á fyrstu níu mánuðum ársins var 19,5 milljónir evra, andvirði um þriggja milljarða króna, samanborið við 8,1 milljóna króna hagnað á sama tíma í fyrra. Í tilkynningu er haft eftir Theo Hoen, forstjóra Marels, að sá vöxtur sem einkenni starfsemina nú sé að öllu leyti innri vöxtur. Landfræðileg dreifing verkefna sé góð, sem skapi góða undirstöðu fyrir áframhaldandi vöxt og verðmætasköpun.