Rekstrarhagnaður Marels fyrir fjármagnsliði (EBITDA) nam 19,9 milljónum evra á þriðja ársfjórðungi eða 13,3% af tekjum. Marel birti ársfjórðungsuppgjör sitt í dag.

Tekjur félagsins námu 149,5 milljónum evra sem er 33,5% aukning miðað við tekjur af kjarnastarfsemi á sama tímabili í fyrra. Samanborið við heildartekjur nemur aukningin 11,8%.

Rekstrarhagnaður (EBIT) var 13,8 milljónir evra sem er 9,2% af tekjum.

Hagnaður af heildarstarfsemi eftir skatta var 2,4 milljónir evra á þriðja ársfjórðungi.

Í tilkynningu frá félaginu segir að þriðji ársfjórðungur hafi verið góður og reiknar félagið fyllilega vel með að ná markmiði sínu um að rekstrarhagnaður (EBIT) á árinu verði 10-12% af veltu.

„Marel á í formlegum viðræðum við takmarkaðan fjölda alþjóðlegra banka um fjármögnun fyrirtækisins. Stöðug og hagkvæm ný fjármögnun mun auðvelda frekari samþættingu á starfsemi fyrirtækisins,“ segir í tilkynningu.

Theo Hoen, forstjóri Marels, segir að gert sé ráð fyrir góðum fjórða ársfjórðuni. „Við náðum enn á ný góðum árangri á ársfjórðungnum. Sala jókst um 33% miðað við sama tímabil fyrir ári. Rekstrarhagnaður það sem af er ári er í samræmi við EBIT markmið okkar um 10-12%. Við gerum ráð fyrir góðum fjórða ársfjórðungi. Ákvörðun okkar um að viðhalda fjárfestingu í nýsköpun og vöruþróun er að skila sér. Nýjar vörur eins og SensorX og RevoPortioner seljast vel og sala stærri kerfa hefur tekið við sér. Þá er alþjóðlegt sölunet okkar farið að ná sífellt betri árangri í markaðssetningu og sölu. Fyrir vikið er pantanabókin mjög góð.

Um þessar mundir erum við að leggja lokahönd á samþættingarstarf okkar og að hefja nýtt skeið í þróun fyrirtækisins. Héðan í frá munum við einbeita okkur sem eitt fyrirtæki undir merkjum Marel að því að auka tekjur og arðsemi.”