Hagnaður Marels af heildarstarfsemi nam 13,6 milljónum evra á árinu 2010, jafnvirði um 2,1 milljarði króna. Tap félagsins á árinu 2009 nam 11,8 milljónum evra og því um verulegan viðsnúning að ræða.

Tekjur félagsins námu 600,4 milljónum evra, eða 95 milljarðar króna. Tekjur af kjarnastarfsemi jukust um 34% frá árinu áður og voru 582,1 milljón evra. Hagnaður af kjarnastarfsemi fyrir fjármagnsliði og skatta (EBITDA) var 88,1 milljónir evra og af kjarnastarfsemi 82,2 milljónir evra.

Skuldir lækkað

Í tilkynningu til Kauphallar um uppgjörið kemur fram að sjóðstreymi félagsins sé sterkt og nettó vaxtaberandi skuldi hafi lækkað á árinu í 256,7 milljónir evra. Í lok árs 2009 voru skuldirnar 295 milljónir evra. Félagið tryggði sér langtíma heildarfjármögnun á árinu að upphæð 350 milljónir evra.

Þá styrktist pantanabók Marels með hverjum ársfjórðungi og er rakið til stöðugs framboðs nýrra vara og batnandi markaðsaðstæðna. Í lok árs var pantanabók 162,2 milljónir evra samanborið við 105,8 milljónir evra í lok árs 2009.

„Árið 2010 var mjög gott hjá Marel. Tekjur af kjarnastarfsemi námu 582,1 milljónum evra, sem er 34% aukning miðað við árið á undan. Markaðsvirkni jókst stöðugt eftir sem leið á árið og nýjar pantanir voru fleiri en afgreiddar pantanir á hverjum ársfjórðungi. Pantanabókin styrktist þannig jafnt og þétt og var 162,2 milljónir evra í árslok, sem er met hjá fyrirtækinu og 53% aukning miðað við sama tíma fyrir ári.

Ný langtímafjármögnun sem Marel tryggði sér í nóvember 2010 að upphæð 350 milljónir evra markaði tímamót. Samningurinn, sem sex alþjóðlegir bankar standa að, skapar fyrirtækinu sterkan grundvöll til framtíðar,“ segir í tilkynningu.

Besti ársfjórðungur frá upphafi

Theo Hoen, forstjóri Marels, segir í tilkynningu að Marel hafi náð framúrskrandi árangri á fjórða ársfjórðungi 2010 og var sá besti frá upphafi. „Með mikilli aukningu í fjölda pantana á fjórða ársfjórðungi náði pantanabókin nýjum hæðum. Rekstrarhagnaður (EBIT) var 12% á fjórða ársfjórðungi og 11% fyrir árið í heild, sem er í fullu samræmi við markmið okkar um 10-12% rekstrarhagnað. Ákvörðun okkar um að viðhalda fjárfestingu í nýsköpun og vöruþróun, þrátt fyrir erfitt rekstrarumhverfi, er nú tvímælalaust að skila sér. Við höfum kynnt fjölda nýrra tækja og lausna til sögunnar á árinu og munum halda því áfram.

Endurfjármögnun félagins á fjórða ársfjórðungi markaði tímamót. Vaxandi EBITDA og lækkandi skuldir gerði okkur kleift að ná hagstæðri langtíma fjármögnun með samningi við hóp sex alþjóðlegra banka. Við erum nú í góðri stöðu til að uppskera ávinninginn af því að vera orðin að einu sameinuðu fyrirtæki.

Við byggjum á sannreyndu viðskiptalíkani þar sem markaðsáhersla, nýsköpun og rekstrarhagræði eru í fyrirrúmi.  Horft fram á veginn erum við þess fullviss að við munum ná markmiðum okkar um góða arðsemi og vöxt,“  segir Theo Hoen í tilkynningu.

Ársuppgjör Marels.