*

föstudagur, 5. júní 2020
Innlent 7. júní 2019 07:09

Marel skráð á Euronext

Hlutabréf Marel hafa verið tekin til viðskipta í kauphöllinni i Amsterdam.

Ritstjórn
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel slær í gong við opnun markaðar.
Aðsend mynd

Hlutabréf Marel voru tekin til viðskipta í Euronext kauphöllinni í Amsterdam kl 9 að staðartíma í morgun við hátíðlega athöfn þar sem Árni Oddur Þórðarson sló í gong sem markaði upphaf viðskipta. Kauphöllin í Amsterdam var stofnuð árið 1602 sem gerir hana að þeirri elstu í heiminum. Líkt og áður hefur verið greint frá er skráningin til viðbótar við skráningu bréfanna á Íslandi og er því um tvíhliða skráningu að ræða. 

Marel er 132. fyrirtækið sem skráð er í Euronext kauphöllina í Amsterdam en það fyrsta á þessu ári. Skráð fyrirtæki í kauphöllum Euronext eru hins vegar yfir 1.300 talsins. Samhliða skráningunni fór fram hlutafjárútboð á 100 milljón nýjum hlutum sem jafngildir um 15% af hlutafé félagsins. Margföld umframeftirspurn var á útboðgenginu með mikilli eftirspurn frá bæði fagfjárfestum og almennum fjárfestum. Útboðsgengi félagsins var 3,7 evrur en verð í fyrstu viðskiptum nam 3,85 evrum. Miðað við útboðsgengið nemur markaðsvirði Marel 2,82 milljörðum evra eða um 394 milljörðum íslenskra króna. Miðað við markaðsvirði telst Marel til millistórra fyrirtækja á hollenska markaðnum. 

Í tilkynningu vegna lokaverðs í útboðinu lét Árni Oddur Þórðarson forstjóri Marel hafa eftir sér: 

„Í dag er stór stund í sögu félagsins nú þegar skráning í Euronext kauphöllina í Amsterdam er í höfn, til viðbótar við skráninguna á Íslandi. Við erum afar stolt af þeim mikla áhuga sem hlutabréfaútboðið fékk, bæði frá einstaklingum og fagfjárfestum hér heima og erlendis. Margföld eftirspurn var í útboðinu sem dreifðist vel til fjárfesta í Bretlandi, Bandaríkjunum, Íslandi, Hollandi og fleiri landa. Skráningin í Euronext kauphöllina mun styðja við næstu skref í framþróun félagsins og styðja við metnaðarfull vaxtarmarkmið. Sýn okkar er veröld þar sem hágæða matvæli eru framleidd á hagkvæman og sjálfbæran hátt.”

Stikkorð: Marel