Hlutabréf Marel verða tekin til viðskipta í Euronext kauphöllinni í Amsterdam klukkan 9 að staðartíma á morgun. Marel hafði greint frá því í síðasta mánuði að skráningin myndi fara fram á yfirstandandi ársfjórðungi en vinna við skráningu bréfa félagsins erlendis hefur staðið yfir frá því í mars á síðasta ári.

Skráning bréfanna í Amsterdam er til viðbótar við skráningu í  íslensku kauphöllinni og er því um tvíhliða skráningu að ræða. Samhliða skráningunni hefur félagið farið í hlutafjárútboð á 100 milljónum nýrra hluta sem samsvara um 15% af núverandi hlutum í félaginu.

Marel hefur greint frá því að tilboð og áskriftir hafi borist fyrir fullum fjölda þeirra hluta sem boðnir eru til sölu í útboðinu, að meðtöldum valréttum til að mæta umframeftirspurn á hvaða verði sem er innan hins leiðbeinandi verðbils.