Ástand á lykilmörkuðum Marels hefur þokast til betri vegar og staða pantana hefur batnað um 17% á milli ársfjórðunga. Pantanastaðan er þó enn undir viðmiðum frá árinu 2008. Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu Marels fyrir annan ársfjórðung. Þar segir að pantanir skili sér í tekjum á 2-6 mánuðum og að aukningin endurspegli sterka stöðu Marels sem leiðandi fyrirtækis á markaði, sem og hagstæðar breytingar á neysluvenjum og bætt rekstrarumhverfi viðskiptavina.

Forstjóri segir fjárhagslegt umhverfi félagsins traustara

Í tilkynningunni er haft eftir Theo Hoen forstjóra að rekstrarafkoma á fjórðungnum hafi batnað, sjóðstreymi aukist, uppbygging fjármögnunar verið bætt og gengið hafi verið frá stórum samningum við viðskiptavini. „Við skilum rekstrarhagnaði og fjárhagslegt umhverfi fyrirtækisins eru nú traustara í kjölfar endurfjármögnunar skammtímaskulda. Við munum halda áfram að hagræða til að styðja við bætta rekstrarafkomu. Mat okkar á langtímahorfum og undirliggjandi vexti í greininni er óbreytt. Við stefnum að því að vaxa um minnst tvö prósent umfram meðalvöxt markaðarins. Við erum fullviss um að fyrirtækið muni standa sterkara en áður þegar aðstæður á mörkuðum lagast, sérstaklega vegna þeirra umfangsmiklu hagræðingaraðgerða sem við höfum gripið til og hafa lækkað grunnkostnað fyrirtækisins til lengri tíma litið. Þar að auki höfum við skerpt á stefnu fyrirtækisins. Prótínneysla heldur áfram að aukast og viðskiptavinir okkar hagnast. Þeir treysta á að við þróum þær vörur og kerfi sem gera þeim kleift að fanga vöxtinn á sem hagkvæmastan hátt,“ segir Theo Hoen í tilkynningunni.

Tekjur Marels á öðrum fjórðungi námu 132 milljónum evra, eins og sjá má í meðfylgjandi töflu. Þar af skilaði kjarnastarfsemin 107 milljónum evra, en var 103 milljónir evra á fyrsta ársfjórðungi í fyrra. Hagnaður eftir skatta var 17 milljónir evra á öðrum ársfjórðungi, sem er aukning frá 10,1 milljón evra í fyrra.