Stjórn Marel hefur ráðið Árna Odd Þórðarson sem forstjóra Marel.  Samhliða urðu þær breytingar  á stjórn Marel að Ásthildur Margrét Otharsdóttir verður stjórnarformaður og Arnar Þór Másson verður varaformaður stjórnar.

Theo Hoen, sem lætur af störfum forstjóra, hefur starfað hjá Marel og Stork Food Systems frá árinu 1986, þar af sem forstjóri frá því snemma árs 2009.

Viðskipti með bréf í Marel voru stöðvuð í Kauphöllinni í dag eftir að DV greindi frá því að hugsanlega myndi Árni Oddur taka við. Hlutabréf í félaginu ruku upp í Kauphöllinni eftir hádegi í dag.

„Ég hlakka mikið til að vinna náið með því frábæra fólki sem Marel hefur á að skipa. Starfsmenn Marel hafa byggt upp alþjóðlegt þjónustunet í yfir 30 löndum og þeir kappkosta að viðhalda leiðtogastöðu sinni  á markaði með nýsköpun að leiðarljósi. Vaxtarsaga félagsins sýnir glöggt þann góða árangur sem náðst hefur og möguleikarnir á að skapa aukin verðmæti fyrir viðskiptavini okkar jafnt sem hluthafa eru miklir. Næstu skref eru að framkvæma stefnu Marel sem byggir á grundvallar styrkleikum félagsins“, segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, í tilkynningu til Kauphallarinnar.