Tap Marels á þriðja ársfjórðungi nam 0,7 milljónum evra (61 milljón króna) samanborið 1,2 milljón evra  (107 milljónir króna) hagnað á sama tímabili fyrir ári, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

Rekstrarhagnaður EBIT á þriðja ársfjórðungi 2006 var 1,7 milljónir evra (152 milljónir króna) sem er 2,9% af tekjum samanborið við 2,1 milljón (165 milljónir króna) í fyrra. Á tímabilinu lætur nærri að gjaldfærður einskiptiskostnaður vegna kaupa Marel á nýjum félögum nemi um 1,5 milljón evra.

Sala þriðja ársfjórðungs 2006 nam 57,6 milljónum evra (5,2 milljarðar króna) samanborið við 30,4 milljónir (2,4 milljarðar króna) á sama tíma árið áður. Salan jókst því um 90%. Frá þriðja ársfjórðungi 2005 hafa félögin AEW Delford Systems og Scanvægt bæst við annars vegar 7. apríl og hins vegar 4. ágúst.

“Proforma” söluaukning á þriðja ársfjórðungi frá sama tíma 2005 nemur ríflega 3% og er aukningin öll komin frá félögunum sem Marel hefur yfirtekið á árinu.

Samþættingarkostnaður mun einkum falla til á næstu þrem ársfjórðungum

“Sameining fimm félaga innan samstæðunnar í N-Ameríku sem þegar er hafin mun styrkja sölu og þjónustustarf með umtalsverðum sparnaði í stjórnunarkostnaði. Samþætting félaganna á öðrum sviðum hefur gengið samkvæmt áætlun og nú er gert ráð fyrir að rekstrarleg markmið sem kynnt voru í tengslum við kaupin á Scanvægt náist að nokkru fyrr en gert var ráð fyrir eða að hluta á árinu 2007 og að fullu á árinu 2008.

Eins og tilkynnt var í tengslum við sex mánaða uppgjör félagsins þá mótaðist rekstur þess á þriðja ársfjórðungi af umfangsmiklum samþættingaraðgerðum á milli Marel, AEW/Delford, Carnitech og Scanvægt.

Samþættingarkostnaður mun einkum falla til á næstu þrem ársfjórðungum. Áætlað er að hann verði um 8-10 milljónir evra og skili auknum rekstarhagnaði sem nemur um 15 milljónum evra á ári. Eðli málsins samkvæmt mun allur samþættingarkostnaðurinn koma fram í upphafi en ávinningurinn koma fram á nokkrum misserum," segir Hörður Arnarson, forstjóri.

Fyrstu níu mánuðir ársins

Sala fyrstu níu mánuði ársins 2006 nam 136,8 milljónum evra (11,9 milljarðar króna) samanborið við 94,3 milljónir (7,5 milljarðar króna) sem er um 45% aukning frá fyrra ári. Áhrifa AEW Delford Systems í Bretlandi gætir frá 7. apríl og Scanvægt frá 4. ágúst síðastliðnum í samstæðureikningi Marel.

Rekstrarhagnaður EBIT á tímabilinu janúar til september 2006 var 6,4 milljónir evra (561 milljón króna) sem er 4,7% af sölutekjum samanborið við 8,4 milljónir eða 9,0% af sölu árið áður.
Hagnaður Marels á fyrstu þremur ársfjórðungum 2006 var 0,7 milljónir evra (58 milljónir króna) samanborið við 5,1 milljón árið 2005.

Fjármagnsgjöld voru um 3,8 milljónir evra samanborið við 2,0 milljónir evra árið áður. Hækkun stafar einkum af aukinni starfsemi vegna ytri vaxtar tengdum kaupum á AEW Delford Systems og Scanvægt. Tap af hlutdeildarfélagi má rekja til verðlækkunar á hlutabréfum í hollenska fyrirtækinu Stork NV en þau eru færð á markaðsvirði.

Handbært fé í lok tímabilsins nam 63,9 milljónum evra og eiginfjárhlutfall var 39,4%.