Gengi hlutabréfa Marel hækkaði um 3,84% í Kauphöllinni í dag. Var þetta mesta gengishækkun dagsins. Fyrirtækið hefur átt nokkuð erfitt ár á hlutabréfamarkaðnum miðað við hvað það hefur mátt venjast áður. Í byrjun mánaðarins hafði gengi bréfanna ekki verið lægra í fjögur ár, en eftir töluverða lækkun að undanförnu hafa bréfin hækkað aftur.

Á sama tíma hækkaði gengi bréfa Icelandair um 2,3%, Eimskips um 2,06%, Össurar um 1,11% og Haga um 0,44%.

Þá lækkaði gengi bréfa N1 um 0,93%, Sjóvá um 0,5%, VÍS um 0,49% og HB Granda um 0,16%.

Gengi úrvalsvísitölunnar hækkaði um 1,43% og stendur hún nú í 1.163 stigum. Heildarvelta með hlutabréf nam 879 milljónum króna.