Afkoma Marel Food Systems versnaði mikið á milli ára á fyrsta fjórðungi, en félagið birti uppgjör í gær. Tap félagsins nam 7 milljónum evra, en á sama fjórðungi í fyrra var 0,7 milljóna hagnaður af rekstrinum.

Valdimar Halldórsson hjá IFS Greiningu segir að vitað hafi verið að uppgjör fyrsta fjórðungs yrði slakt og að IFS Greining hafi spáð tapi. Afkoman hafi þó orðið heldur verri en búist hafi verið við.

Afkoma fyrir fjármagnsliði, EBIT, var neikvæð á fyrsta fjórðungi um 5,8 milljónir evra, en í fyrra var 2,2 milljóna evra hagnaður fyrir fjármagnsliði.

Framlegð dróst saman um rúmar tvær prósentur og var 32,2%. Hlutfall hagnaðar fyrir afskriftir af sölu, EBITDA-hlutfall, var 0,6% en 6,9% á sama tímabili í fyrra.

Handbært fé frá rekstri var jákvætt á fjórðungnum og sjóðstreymi mun sterkara en í fyrra. Handbært fé jókst um 50%

Skýr teikn um að sala sé að aukast, segir forstjórinn

Skýr teikn eru á lofti um að sala sé að aukast, segir Theo Hoen, forstjóri Marel Food Systems, í afkomutilkynningu félagsins sem birt var í gær.

Hoen segir að rekstrarafkoma endurspegli áhrif alþjóðlegu fjármálakreppunnar á starfsemi fyrirtækisins. Viðskiptavinir eigi enn í vandræðum með að fjármagna fjárfestingar í stórum kerfum, en áhrifin á þjónustu, sölu smærri kerfa og varahlutasölu séu óveruleg.

Að sögn Hoen eru horfur áfram mjög góðar til lengri tíma litið. Sterkur undirliggjandi vöxtur sé í greininni og prótínneysla haldi áfram að aukast. Þá séu viðskiptavinir félagsins að hagnast.