Stjórnendur Marel Food Systems urðu fyrir vonbrigðum með að samlegðaráhrif vegna kaupa á AEW Delford og Scanvægt í fyrra skuli ekki hafa sést í uppgjöri þriðja ársfjórðungs. Þetta kom fram í máli Harðar Arnarsonar forstjóra félagsins á kynningarfundi sem haldinn var í morgun, en eins og fram kemur í Viðskiptablaðinu í dag var afkoma félagsins undir meðalspá greinenda.

AEW Delford og Scanvægt voru keypt á árinu 2005 og upphaflegt markmið var að ná 15 milljóna evra hækkun á rekstrarhagnaði, EBIT, og a.m.k. 10% hlutfalli rekstrarhagnaðar af tekjum á 2-3 árum. Í upphafi þessa árs var tímarammi markmiðsins styttur niður í 1,5-2 ár og Hörður segir að þrátt fyrir vonbrigðin með þriðja fjórðung sé gert ráð fyrir að þau markmið sem þá hafi verið sett muni nást.  EBIT-hlutfallið hefur það sem af er ári verið vel undir 8% markmiði Marel samstæðunnar fyrir þetta ár, en Hörður segir að stefnt sé að því að ná markmiðinu á fjórða fjórðungi. Ennfremur sé stefnt að því að ná markmiði um 10% EBIT að meðaltali á næsta ári og það sé raunsætt markmið, en krefjandi.