Uppgjör Marels fyrir annan ársfjórðung var yfir væntingum greiningaraðila, en söluaukning milli ára nemur nær 100%. Meðalspá greiningaraðila hafði gert ráð fyrir 4,1 milljónar evra hagnaði, en hagnaður félagsins á öðrum fjórðungi reyndist rétt rúmlega 10 milljónir evra.

EBIDTA á öðrum fjórðungi nam 16,3 milljónum evra, sem er einnig lítillega yfir væntingum greiningaðila.

Efnahagsreikningur Marels þenst út milli fjórðunga, en sem kunnugt er tók félagið fyrir hollenska matvælaframleiðandann Stork Food Systems á tímabilinu. Samruninn gekk endanlega og formlega í gegn á fjórðungnum sem leið, og því stækkar efnahagur félagsins jafn mikið og raun ber vitni á fjórðungnum.

Eiginfjárhlutfall félagsins lækkar nokkuð og er nú 32,5%. Á sama tíma í fyrra og á fyrsta fjórðungi var eiginfjárhlutfallið nær 43%.