Yfir eitthundrað bandarískar borgir gætu orðið gjaldþrota á næsta ári samkvæmt mati Meredith Whitney. Whitney, sem er virtur greinandi í bankaheiminum vestanhafs, var í viðtali í 60 minutes á CBS sjónvarpsstöðinni í gærkvöldi.

Að mati Witney er þetta stærsta ógnin við bandarískt efnahagslíf en hún telur fullvíst að mikill fjöldi skuldabréfa útgefnum af sveitarfélögum lendi í vanskilum. Vanskilin gætu numið hundruð milljónum dala.

Bandarískar borgir og sveitarfélög skulda um 2.000 milljarða dala. Evrópsk sveitarfélög skulda um 1.700 milljarða. Ástandið í Evrópu er lítt frábrugðið ástandinu vestanhafs. Margar evrópskar borgir, til að mynda Madrid, Barcelona, Napolí og Flórens munu eiga erfitt með að standa við lánasamninga sína á komandi ári.