Hendrik hefur verið viðloðandi Ísland undanfarin þrettán ár, allt frá því að hann var markaðs- og sölustjóri Smyril Line. Hann segir engan vafa á að í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu séu allt of margar bensínstöðvar. „Það eru bensínstöðvar alls staðar. Ef þú horfir til Costco þá eru þau með eina bensínstöð, þar sem dælurnar ganga allan daginn. Við þurfum að reka ansi margar stöðvar bara til að selja nokkurn veginn sama magn af eldsneyti og Costco gerir á einni stöð. Það er mjög erfitt fyrir okkur að keppa við það.

Ég las einhvers staðar að borgarstjórn Reykjavíkur væri þeirrar skoðunar að það séu allt of margar bensínstöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Ég er algjörlega sammála því og ég tel að Costco hafi minnt okkur á að fyrir neytandann, borgina og olíufélögin sé ekki heil brú í að hafa svona margar bensínstöðvar á þessu svæði. Við gætum boð­ið neytandanum betur ef við gætum haft meiri veltu á hverri stöð. Kannski aldrei jafnmikla og Costo, en allavega meiri en í dag. Þetta er eitthvað sem ég mun skoða. Við vitum af afstöðu borgaryfirvalda í þá veru að þau vilja ekki allar þessar bensínstöðvar. Það er hægt að nota lóðirnar fyrir eitthvað annað og jafnvel uppbyggilegra en bensínstöðvar.

Costco hefur sýnt okkur að hlutirnir stefna í þessa átt. Gæði, góða vöru og nógu góða þjónustu, en ekki of mikla. Þar fyrir utan vil ég benda á þá staðreynd að Costco nær aðeins til höfuð­borgarsvæðisins. Við erum hins vegar bæði með stöðvar um allt land og með 40% af okkar hagnaði frá markaði sem Costco keppir ekki á – Færeyjum.“ Sá markaður er alls ekki einskorðaður við eldsneyti á bíla, heldur miklu frekar sala á eldsneyti til iðnaðar, skipa og húshitunar. „Þetta er það sem við högnumst á, til viðbótar við smásölu. Þannig að ef ég er þeirrar skoðunar að Costco sé öflugur keppinautur, þá velti ég fyrir mér hvað stjórnendur hinna olíufélaganna hugsa. Við fáum góðan skerf af okkar tekjum frá markaði þar sem við erum ekki að keppa við Costco. Við erum með miklu dreifð­ ari áhættu. En það er engin spurning, við munum keppa hvar sem við getum og höldum verðinu eins lágu og hægt er. Vandinn er bara sá að ef þú þarft að halda úti risavöxnu neti bensínstöðva þá er það dýrt,“segir Hendrik.

Á höfuðborgarsvæðinu er ein bensínstöð fyrir um það bil 2.700 manns. Landsmeðaltalið er í kringum 1.200. Til samanburðar eru um 5.700 manns fyrir hverja bensínstöð í gervöllu Þýskalandi og um 10.000 manns á bakvið hverja bensínstöð í Lundúnum.

„Eldsneytisþörf fólks minnkar ekki þótt bensínstöðvum fækki. Við höfum ekkert ákveðið um fækkun bensínstöðva en eins og markaðurinn er að þróast og á þessum ofþjónustaða markaði þá ættum við að skoða það. Ég er ekki feiminn við að segja að ég held að þessi markaður sé ofþjónustaður og að það er ekki gott fyrir neinn. Ekki fyrir neytandann, ekki fyrir borgina og alls ekki fyrir Skeljung.“

Eitt af því sem margir telja að standi rafbílavæðingu á Íslandi fyrir þrifum er það hversu langan tíma það tekur að hlaða rafbíla. Hins vegar virðist fólk í dag ekki hafa neitt á móti því að bíða í röð til að kaupa eldsneyti. Heldurðu að það bendi til þess að fólk sé ef til vill þolinmóðara en talið hefur verið þegar kemur að því að fylla á tankinn?

„Þegar við horfum til þess í alþjóðlegu tilliti hvernig fólk hegðar sér þá sjáum við að ef einhver bensínstöð lækkar verð bara örlítið þá flykkist fólk þangað og keyrir jafnvel svo langar vegalengdir að sparnað­ urinn hverfur við það. Ég held að það gefi fólki þá tilfinningu að þarna sé fyrirtæki sem býður lægra verð og það vill styðja fyrirtækið. Þess vegna teljum við að Orkan X sé mikilvæg til að stækka Orku-vörumerkið og að það er mikilvægt að þó svo að við séum með viðskiptavini sem vilja mikla þjónustu þá hefur markaðurinn breyst og að fólk vill góða, ódýra vöru.“

Heldurðu að þessi mikla þolinmæði fyrir röðinni hjá Costco geti stafað af því stormasama sambandi sem íslenskur almenningur hefur átt við olíufélögin gegnum tíðina? „Ég held að ef þú starfar hjá stóru olíufélagi, orkufyrirtæki, banka eða tryggingafélagi þá munu alltaf einhverjir halda að fyrirtækin séu að taka meira af neytandanum en rétt þykir. „Sjáðu höfuðstöðvarnar þeirra og bílana þeirra,“ hugsa einhverjir örugglega. Ég held að við munum aldrei komast undan því. Hið opinbera hefur eftirlit með okkur en þegar ég horfi á verðin hjá okkur, bæði á Íslandi og í Færeyjum, og svo á framlegðina hjá okkur og síðan á eldsneytisverð á heimsvísu þá get ég ekki annað sagt en að Ísland og Færeyjar njóti góðra kjara. Vandinn hér er fjöldi bensínstöðva og kostnaðurinn við þær. Samkeppni á Íslandi er hörð. N1 bætir við Dælunni, við breytum Skeljungsstöðvum í Orkustöðvar og svo auðvitað Costco – samkeppnin er virkilega hörð á þessum markaði og við þurfum að vera á tánum ef við ætlum að hagnast á honum. Ég geri ráð fyrir að stjórnendur hinna félaganna séu að hugsa það sama. En þeir eru ekki í sömu stöðu og við. Skeljungur hefur tekið skrefið út í heim með því að kaupa Magn og núna erum við að samþætta fyrirtækin betur. Fyrsta skrefið er auðvitað erfiðast. Ég myndi segja að þetta sé grundvallarmunur en enginn talar um það. Alltaf þegar við tölum um Skeljung spyr fólk hvaða áhrif koma Costco hafi. Já, við þurfum að tala um Costco en 40% af hagnaði Skeljungs koma frá Færeyjum og við erum í sókn á alþjóðavísu. Við höfum okkar sýn á markaðinn á Norður-Atlantshafi þannig að já, tölum um Costco en tölum líka um allt hitt.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.