Á þessu ári hafa verið meiri sveiflur á heimsmarkaðsverði á olíu en þekkst hafa um árabil og líklega hafa þær aldrei verið jafn miklar á skömmum tíma. Að sögn Magnúsar Ásgeirssonar, innkaupastjóra eldsneytis hjá N1, er ástæðan út af fyrir sig ekki flókin; óróleiki á fjármála- og hrávörumörkuðum þar sem upplýsingar um markaði fara leiftursnöggt um heiminn og eldsnöggar ákvarðanir eru teknar um víða veröld.

„Hæðir og lægðir eru meiri en áður og þegar eitthvað kemur fram, sem hreyft getur við mörkuðum, berast upplýsingar í nútímafjarskiptum á sekúndum og sveiflurnar verða vafalaust ýktari en raunverulegt tilefni er til."

„Sem dæmi um það hversu óstöðugir olíumarkaðir eru má nefna viðbrögðin sem urðu þegar einn af yfirmönnum seðlabanka Bandaríkjanna sagði um miðjan júlí að vandamál á húsnæðismarkaði og hátt orku- og matarverð væru að setja efnahagsmálin í Bandaríkjunum í vanda."

„Ben Bernanke sagði að fjárfestar hefðu fjárfest á þessu ári í olíu og annarri hrávöru til að tryggja sig gagnvart verðbólgu og veikum dollar, sem hefði stuðlað að hækkun heimsmarkaðsverðs á hráolíu um nær 50%.“

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu á morgun. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .