Fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, Margaret Thatcher, lést í morgun úr heilablóðfalli 87 ára að aldri, að því er segir í frétt BBC.

Thatcher var forsætisráðherra Bretlands á árunum 1979 til 1990 og umbreytti bresku samfélagi. Vegna þess hve áhrif hennar voru mikil var Thatcher gríðarlega umdeild allan þann tíma sem hún stýrði bresku stjórninni og í raun alla tíð síðan hún lét af embætti.

Hún var fyrsta, og enn sem komið er, eina konan sem gegnt hefur embætti forsætisráðherra Bretlands og var fyrst kjörin á þing árið 1959.

Meðal þess sem ríkisstjórnir hennar gerðu var að einkavæða fjölda fyrirtækja sem verið höfðu í eigu ríkisins. Undir hennar handleiðslu varð íhaldsflokkurinn markaðssinnaðri en hann hafði verið undir forverum hennar í embætti.