Margeir Pétursson, fyrrverandi stjórnarformaður MP banka, ber Fjármálaeftirlitinu ekki vel söguna í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Mannlífs. Eitt af þeim áföllum sem MP banki þurfti að takast á við árið 2009 kom, að sögn Margeirs, í desember þegar Fjármálaeftirlitið fór í vettvangsrannsókn hjá bankanum.

„Þetta hafði gerst áður, en nú ætlaði FME greinilega að bæta upp slæleg vinnubrögð í föllnu bönkunum og tók MP banka hreinlega í gíslingu. Eftir langa rannsókn komust þeir að því að við værum sekir um að vera með stórar áhættuskuldbindingar gagnvart tengdum aðilum upp á 126% af eigin fé, en hámarkið er 25%. Við þurftum að fara í dómsmál til að hnekkja þessari lögleysu og unnum það bæði fyrir Héraðsdómi og Hæstarétti. Á meðan var þessu öllu lekið skilmerkilega í fjölmiðla. Þarna braut FME gróflega á okkur, en eins og Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri, sagði við mig á fundi niðri í Seðlabanka um þetta leyti, þegar við reyndum að fá leiðréttingu okkar mála, „eftirlitsaðilar voru of linir fyrir hrun, nú eru þeir e.t.v of harðir, en þannig er þetta bara“. Þetta var nú það umhverfi sem við máttum búa við eftir að hafa lifað hrunið af.“