„Það hefði líklega verið betra að fara á hausinn í hruninu eins og allir hinir“, segir Margeir Pétursson, fyrrverandi stjórnarformaður MP banka í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Mannlífs. „Þá væri ég líklega að safna atkvæðum í prófkjöri frekar en að standa vörð um íslenskar eignir og hagsmuni úti í Úkraínu, því landi Evrópu þar sem erfiðast er að eiga viðskipti. MP banki var mjög vel undir það búinn að mæta hruni á Íslandi, en það var ógerlegt að gera sér grein fyrir því hversu algert hrunið í fjármálageiranum yrði.“

Margeir segir að aðdragandi þess að hann dró sig úr rekstri bankans og að MP banki fór að lokum til annarra eigenda hafi verið blanda af ósanngjörnum inngripum stjórnvalda og málareksturs slitastjórna gömlu bankanna. Í janúar 2010 hafi skilanefnd Landsbankans ákveðið að gera 7,5 milljarða króna kröfu á bankann, sem var meira en allt eigið fé MP banka, en Margeir segir að ekki hafi verið fótur fyrir kröfunni.

Skilanefndin hafi ekki haft neinu að tapa á meðan bankinn hafi ekki getað birt uppgjör með svo stóran óvissuþátt. Allar frekari hlutafjáraukningar hafi verið ómögulegar með þetta hangandi yfir bankanum. „Venjulegt fyrirtæki sem fær á sig umdeilanlega kröfu getur varist fyrir dómstólum, en fyrir viðskiptabanka sem þarf að uppfylla strangar kröfur er það óhugsandi með öllu.“