Margeir Pétursson, fyrrverandi stjórnarformaður MP Banka og eignarhaldsfélagsins Austurbrautar, lét Austurbraut kaupa fasteignir af MP Banka á yfirverði í fyrra. Hluthafar Austurbrautar eru meðal annars FSP Holding, fjárfestingafélag Byrs, Sparisjóðsins í Keflavík og Sparisjóðabankans, MP Banki, Margeir Pétursson ehf., hollenska félagið Vostok Holdings og Saxbygg.

Þetta kemur fram í DV í dag.

MP banki leysti til sín fasteignir sem höfðu verið í eigu eignarhaldsfélagsins Aurora Holding, sem var í eigu MP banka og tengdra aðila. MP banki seldi svo hluta þessara eigna til Austurbrautar. Um það bil mánuði eftir að viðskiptin áttu sér stað voru eignirnar sem seldar voru inn í Austurbraut frá MP banka færðar niður í verði um 80 til 100 milljónir króna í bókum Austurbrautar, samkvæmt heimildum DV.

Viðskiptablaðið greindi frá því í byrjun mánaðar að félögunum Aurora Holding og Vostok Holdings hf., sem einnig var í eigu aðila tengdum MP banka, hafi verið slitið þann 18. desember 2009. Eignir félaganna voru færðar inn í hollenska félagið Vostok Holdings Netherlands BV, samtals rúmlega 5 milljarðar króna. Hlutur MP banka í nýja hollenska félaginu fóru inn í félögin Palteskju hf. og Spákonufell hf. og halda þau um 14% hlut í hollenska félaginu samkvæmt ársreikningum félaganna fyrir árið 2009.

Palteskja og Spákonufell voru fjármögnuð af MP banka með rúmlega milljarða króna kúluláni til þriggja ára. Lánin voru veitt 19. desember 2009, daginn eftir að Aurora Holding og Vostok Holdings var slitið. Palteskja og Spákonufell töpuðu samtals 275 milljónum króna á árinu 2009, tæplega þriðjungi þess fjármagns sem þeim var veitt tólf dögum fyrr.

Austurbraut hf. á samkvæmt ársreikningi síðasta árs 4,7% hlut í hollenska félaginu.