Margeir Pétursson, stofnandi og stjórnarformaður MP banka, er hættur í stjórn bankans eftir framhaldsaðalfund, sem haldinn var síðastliðinn fimmtudag. Fundinum hafði áður verið frestað í lok júní þegar í ljós kom að kosið yrði í stjórn bankans eftir óánægju með þá uppstillingu sem átti að leggja fyrir aðalfundinn. Sveinn Margeirsson bauð sig þá fram í stjórnina og vildi stuðnings Byrs, sem er einn hluthafa í MP banka. Var þá ákveðið að fresta fundi um mánuð og var ný stjórn kjörin síðastliðinn fimmtudag.

„Ágætu starfsmenn MP Banka. Eftir að ný lög um fjármálafyrirtæki tóku gildi er ljóst að stjórnir slíkra fyrirtækja eiga fyrst og fremst að gegna eftirlitshlutverki. Á þetta alveg sérstaklega við um stjórnir viðskiptabanka.

Ég ákvað því fyrr á þessu ári að víkja úr stjórn MP Banka eftir 11 ára stjórnarsetu og sama á við um Sigurð Gísla Pálmason sem verið hefur í stjórninni í átta á,“ segir í bréfi sem Margeir sendi starfsfólki MP á Íslandi á föstudaginn.

Ný stjórn

Ný stjórn MP Banka hefur verið mynduð og sitja nú í henni Ragnar Þórir Guðgeirsson, Sigfús Ingimundarson, Ástríður Þórðardóttir, Jón Gunnar Jónsson og Kristinn Zimsen. Í varastjórn sitja Erna Bryndís Halldórsdóttir, Sigurður R. Helgason, Jón Pálmason, Ásgeir Þór Árnason og Lúðvík Örn Steinarsson.