Margeir Pétursson, stofnandi og stjórnarformaður MP Banka segir að sökudólgarnir í Enron hneykslinu mikla hljóti nú að gráta það á bakvið lás og slá að hafa ekki hugsað upp það sem Margeir kallar kennitöluskipti Saga Capital.

Þetta segir Margeir í grein í Fréttablaðinu í dag þar sem hann meðal annars gagnrýnir grein Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra um endurreisn bankanna í Viðskiptablaðinu frá því á fimmtudag.

Margeir segir að nú gangi fjöllunum hærra þær sögusagnir að fjármálaráðherra hyggist veita Saga Capital, sem hafi látið „fallerast“ í ástarbréfaleik föllnu bankanna, mikið hlutverk í endurreisn sparisjóðakerfisins.

„Eitt fyrsta verk ráðherrans í fjármálaráðuneytinu var að veita þessu fyrirtæki 19 milljarða lán á 2% vöxtum til að draga það að landi, sem fyrirtækið eignfærði síðan sem 6 milljarða eign með fáheyrðum bókhaldsæfingum,“ segir Margeir í grein sinni.

„Í fréttum RÚV þann 15. desember lagði ráðherrann sérstaka blessun sína yfir yfirstandandi kennitöluskipti fyrirtækisins. [...] Nú þarf ráðherra að afneita þessum sögusögnum algerlega, þannig að minni vafi leiki á um gagnsæja endurreisn íslensks fjármálakerfis.“

Margeir gagnrýnir sem fyrr segir Steingrím J. fyrir orð hans um að nú séu starfandi á Íslandi „þrír fullfjármagnaðir og heilbrigðir bankar sem hafa fyrst og fremst það hlutverk að þjónusta íslensk heimili og atvinnulíf.“

Þannig segir Margeir að fjármálaráðherra eigi að vita mætavel að á Íslandi sé aðeins starfandi einn heilbrigður viðskiptabanki, MP Banki. Tilvist hinna föllnu banka, sem nú sé búið að endurreisa í Íslandsbanka, NBI og Arion Banka, hafi verið reist á lögum sem gangi á snið við meginreglur alþjóðlegs gjaldþrotaréttar auk þess sem eigendur þeirra séu að mestu þrotabú sem samræmist ekki lögum um fjármálafyrirtæki.

„Mér er ekki kunnugt um nokkurt land þar sem þrotabúum er heimilt að fara með virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki. Það mál verður væntanlega einnig leyst með kennitöluskiptum,“ segir Margeir í grein sinni.

„Ímyndarsérfræðingar nýju bankanna túlka þetta sem eignarhald erlendra aðila og stuðningsyfirlýsingu þeirra við bankana, þótt „eigendurnir" virðist að stórum hluta hrægamma- og vogunarsjóðir í leit að skjótfengnum gróða. Það hlýtur svo að vera að lagaflækju- og ímyndarmenn föllnu bankanna hafi haldið stöðum sínum.“

Þá segir Margeir að MP Banki hafi ekki þegið stuðning frá ríkinu eða kostað skattgreiðendur neitt og það hafi viðskiptavinir kunnað vel að meta.

„Það eina sem við förum fram á er að leikreglur og samkeppnislög verði höfð í heiðri og við njótum sannmælis,“ segir Margeir í grein sinni.

Sjá greinina í heild sinni hér.