Margeir Pétursson, fyrrum eigandi MP banka, og félag hans Margeir Pétursson ehf. voru sýknuð af kröfu Arion banka í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Málið snérist um með hvaða hætti krafa Margeirs á Arion banka átti að koma til skuldajöfnunar vegna skulda Margeirs við Arion banka, áður Kaupþing.

Guðmundur Ingvi Sigurðsson hdl., lögmaður Margeirs, segir að Margeir hafi lýst yfir skuldajöfnuði strax eftir hrun, og féllst dómari á það. Niðurstaðan er því sú að fjármunir Margeirs og Margeirs Péturssonar ehf. sem liggja á ákveðnum reikningi hjá bankanum koma til frádráttar á skuldum. Um er að ræða reikning sem tengist uppgjöri á afleiðusamningum, og átti hagnaður að fara á þennan reikning samkvæmt samkomulagi.