Michael Dell leiðir hóp fjárfesta sem lagt hefur fram yfirtökutilboð í bandaríska tölvuframleiðandann Dell. Á vef breska viðskiptablaðsins Financial Times segir að þetta sé stærsta veðmál Michael Dell til þessa og einhver umsvifamestu fyrirtækjakaup í heimi síðan fjármálakreppan skall á fyrir að verða um sex árum.

Michael Dell er fæddur 23. febrúar árið 1965 og fagnar því 48 ára afmæli í mánuðinum. Hann stofnaði fyrirtækið 19 ára gamall þegar hann var við nám í háskóla í Texas árið 1984. Hann var með aðeins þúsund dollara í vasanum.

Fyrirtækið var skráð á markað fjórum árum síðar og var það um síðustu aldamót orðið að umsvifamesta tölvuframleiðanda í heimi.

Michael stóð upp úr forstjórastól fyrirtækisins árið 2004 en varð stjórnarformaður í staðinn. Hann sneri aftur árið 2007. Hann á enn 14% hlut í fyrirtækinu. Þúsund dollararnir hafa hins vegar margfaldast í höndum hans á síðastlðnum 30 árum og nemur auður hans nú um 16 milljörðum dala, jafnvirði þúsund milljarða íslenskra króna. Um fjórðungur auðsins er bundinn í hlutabréfum Dell en stór hluti í dreifðu eignasafni sem samanstendur af fjárfestingum í fasteignum, timburfyrirtækjum og fjármálastarfsemi.

Financial Times leggur áherslu á það í umfjöllun sinni um yfirtöku Dell á Dell að um stórt veðmál sé að ræða, ekki síst fyrir þær sakir að um fyrirtækið á nær allt undir sölu á tölvum á sama tíma tíma og sala á þeim hefur dregist mikið saman.