Nú fara fram fyrstu forsetakosningarnar við núgildandi lög um fjármál forsetaframbjóðenda. Lögin kveðja á um að hver frambjóðandi megi að hámarki eyða 150 krónum fyrir hvern íbúa á kjörskrá í landinu. Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu eru nú um 235.000 manns á kjörskrá en það þýðir að hver frambjóðandi má mest verja 35.250.000 kr. í kosningabaráttuna.

Í kosningabaráttunni árið 1996 voru engin lög um þá fjármuni sem verja mátti til baráttunnar. Eins og sjá má á meðfylgjandi töflu eyddu þrír af fjórum frambjóðendum þá meira en leyfilegt væri að gera í dag. Upphæðirnar hafa ekki verið færðar til núvirðis svo munurinn er raunar enn meiri.

Fylgi og kostnaður frambjóðenda við framboð fóru saman í forsetakosningunum árið 1996
Fylgi og kostnaður frambjóðenda við framboð fóru saman í forsetakosningunum árið 1996

Þegar Viðskiptablaðið ræddi við forsetaframbjóðendurna um fjármögnun kosningabaráttunnar kom í ljós að flestir hyggjast reiða sig á framlög fyrirtækja og einstaklinga við fjármögnun kosningabaráttunnar. Þá virðist sem kosningabaráttan verði mun ódýrari að þessu sinni en árið 1996.

Samkvæmt núgildandi lögum mega frambjóðendur þó ekki þiggja hvaða styrki sem er. Til að mynda mega einstakir aðilar, hvort sem eru einstaklingar eða fyrirtæki, ekki láta meira af hendi rakna en 400 þúsund krónur.

Lögin ná ekki aðeins til fjárstyrkja heldur ber frambjóðendum skylda til að telja til alla afslætti, ívilnanir og eftirgjafir, endurgjaldslaus afnot af vinnuafli, afnot af búnaði og tækjum og mögulega eftirgjöf eftirstöðva skulda. Allir slíkir styrkir skulu færðir á markaðsvirði i bókhaldið. Þá munu nöfn þeirra sem styrkja framboðin ekki fara leynt en frambjóðendum ber skylda til að gera í uppgjöri grein fyrir nöfnum allra einstaklinga sem styrkja framboð um meira en 200.000 krónur. Þegar kemur að styrkjum frá fyrirtækjum þarf að greina frá öllu, óháð því hver upphæðin er.

Frambjóðendur þurfa að skila fjárhagslegu uppgjöri um kosningabaráttuna fyrir 30. september 2012. Í kjölfar skilanna mun ríkisendurskoðun birta allar helstu upplýsingar um uppgjörin á heimasíðu sinni og verða þær því aðgengilegar almenningi í október.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.