*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 21. apríl 2021 13:45

Margfeldiskosning á aðalfundi Eikar

Krafan um margfeldiskosningu barst frá Brimgörðum sem er stærsti hluthafi Eikar með 14,5% hlut.

Ritstjórn
Garðar Hannes Friðjónsson, forstjóri Eikar
Haraldur Guðjónsson

Margfeldiskosningu verður beitt við stjórnarkjör á aðalfundi Eikar fasteignafélags sem fer fram á mánudaginn næsta, 26. apríl. Krafan um margfeldiskosningu barst frá fjárfestingafélaginu Brimgörðum sem er stærsti hluthafi Eikar með 14,5% hlut. Þetta kemur fram í tilkynningu fasteignafélagsins til Kauphallarinnar. 

Eftirfarandi sjö aðilar buðu sig fram til stjórnar: 

  • Eyjólfur Árni Rafnsson, stjórnarformaður
  • Guðrún Bergsteinsdóttir, varaformaður stjórnar
  • Bjarni Kristján Þorvarðarson, stjórnarmaður
  • Hersir Sigurgeirsson, stjórnarmaður
  • Kristín Friðgeirsdóttir
  • Már Wolfgang Mixa
  • Ragnheiður Harðar Harðardóttir

Í núverandi stjórn fasteignafélagsins sitja ofangreind Eyjólfur, Guðrún, Bjarni og Hersir ásamt Örnu Harðardóttur sem gaf ekki kost á áframhaldandi stjórnarsetu. Tilnefningarnefnd Eikar lagði til að Kristín Friðgeirsdóttir taki sæti Örnu í stjórn félagsins. 

„Kristín hefur yfirgripsmikla reynslu af stjórnarstörfum almennt, hefur mjög góða þekkingu áhættustýringu, fjármálamarkaði og almennum stjórnarháttum gegnum störf sín sem kennari, ráðgjafi og stjórnarmaður. Er það mat nefndarinnar að reynsla hennar af þeim störfum muni styrkja stjórnina enn frekar þegar kemur að góðum stjórnarháttum og sérstaklega áhættustjórnun,“ segir í skýrslu nefndarinnar sem er skipuð af Drífu Sigurðardóttur, Ingólfi Bender og Þorkeli Erlingssyni. 

Margfeldiskosning fer fram með eftirfarandi hætti: Kosið skal á milli einstaklinga. Gildi hvers atkvæðis skal margfaldað með fjölda þeirra stjórnarmanna sem kjósa skal og má hluthafi skipta atkvæðamagni sínu, þannig reiknuðu, í hverjum þeim hlutföllum, sem hann sjálfur kýs, á jafnmarga menn og kjósa skal eða færri. Ef ekki er getið skiptingar atkvæða á milli þeirra sem þau eru greidd skal þeim skipt að jöfnu.

Stikkorð: Eik margfeldiskosning Brimgarðar