Fyrirtækjum innan ferðaþjónustunnar sem skipuleggja ferðir fyrir erlenda gesti, veita upplýsingar og aðra þjónustu hefur fjölgað gríðarlega á undanförnum fjórum árum. Í Fréttablaðinu kemur fram að svokölluð ferðaskipuleggjendaleyfi, útgefin af Ferðamálastofu, voru í árslok 2012 alls 527 en voru 128 í árslok 2008. Þessar upplýsingar koma fram í nýrri skýrslu atvinnu- og nýsköpunarráðherra um stöðu ferðaþjónustunnar.

Árið 2012 var metár hvað varðar fjölda útgefinna leyfa til ferðaskipuleggjenda, ferðaskrifstofa og upplýsinga- og bókunarmiðstöðva þegar 161 nýtt leyfi var gefið út; 110 leyfum fleiri en árið 2008.

Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri segir í samtali við Fréttablaðið að fyrirtækin sem um ræðir séu allt frá því að vera einyrkjar til stærri fyrirtækja með meira umleikis og fjölgunina meðal annars til marks um breytingar á ferðahegðun þeirra sem sækja landið heim.

Tæpt er á því í skýrslunni að svört atvinnustarfsemi í ferðaþjónustu sé áhyggjuefni og eftirlit með leyfisskyldri starfsemi sé lítið og stundum erfitt í framkvæmd. Undir þetta tekur Ólöf. „Leyfin tryggja neytendavernd og eru til marks um að starfsemin sé ofanjarðar. Það liggur frumvarp fyrir þinginu um breytingar á lögum um skipan ferðamála, þar sem kveðið er á um hertar öryggiskröfur til fyrirtækja. Slíkar reglur verða settar í nánustu framtíð og Ferðamálastofa mun á næstu vikum gefa út leiðbeinandi reglur til fyrirtækja, svo þau geti lagað sig að nýjum kringumstæðum.