Sævar Helgason, framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa, telur að það vanti alla umræðu og stefnu um hvers konar bankakerfi eigi að rísa úr rústumhrunsins á Íslandi. Í viðtali við Viðskiptablaðið segir hann íslenska fjármálakerfið vera allt of stórt og að hagræðingar sé þörf.

„Ég er þeirrar skoðunar að fjármálakerfið á Íslandi sé of stórt. Það þarf alls ekki að fjölga fjármálastofnunum heldur þarf aðfara af stað umræða hjá stjórnvöldum um það hvernig fjármálakerfi við viljum byggja upp."

Of margir að sinna víðtækri fjármálastarfsemi

„Ég er líka þeirrar skoðunar að það ætti að horfa á þá uppbyggingu með öðrum augum en verið hefur. Á Íslandi eru margar fjármálastofnanir sem sinna öllu. Þar skapast mikil hætta á hagsmunaárekstrum. Það má segja að það hafi að hluta til verið rótin að hruninu. Að menn hafi svolítið ruglað saman mismunandi sviðum.

Það sést til dæmis vel á því hvernig sjóðir bankanna voru samsettir. Svo er spurning hvort það sé eðlilegt að fjárfestingarbankastarfsemi sé rekin samhliða viðskiptabankastarfsemi og eignastýringu. Mér hefur þótt eðlilegt að skoðað yrði hvernigfjármálakerfi við viljum byggja upp. Ættum við ekki frekar að vera með fyrirtæki sem væru bara í viðskiptabankastarfsemi og önnur sem væru bara í fjárfestingarbankastarfsemi og svo enn önnur sem væru bara í eignastýringu?“

Ítarlegt viðtal er við Sævar í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af því undir liðnum tölublöð hér að ofan.