Fjölmargir landsþekktir aðilar eru enn aðilar að hópi á samfélagsvefnum Facebook sem ber yfirskriftina „ Betri valkost á Bessastaði “ en síðan var sett á fót í byrjun mars.

Sem kunnugt er tilkynnti Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í byrjun mánaðarins að hann hygðist gefa kost á sér áfram, fimmta kjörtímabilið í röð. Ólafur Ragnar tók þó fram að hann kynni að hætta áður en kjörtímabilið rynni á enda.

Viðskiptablaðið greindi frá því þann 4. mars. sl. að fjölmargir einstaklingar hefðu gerst aðilar að hópnum á fyrsta degi. Þar á meðal voru þingmenn, borgarfulltrúar, leikarar, rithöfundar og aðrir þjóðþekktir einstaklingar. Stofnun hópsins olli miklu fjaðrafoki þar sem stjórnendur hans bættu einstaklingum inn í hópinn án þeirra vitundar. Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda og fulltrúi í stjórnlagaráði, er einn af stjórnendum hópsins (e. admin). Aðrir stjórnendur eru Ingibjörg Hinriksdóttir, Ingibjörg Stefánsdóttir og Svala Jónsdóttir.

Nú eru hins vegar liðnar nokkrar vikur frá því að hópurinn var stofnaður. Fjölmargir af þeim þekktu einstaklingum sem voru skráðir í hópinn í upphafi hafa nú hætt í honum og látið fjarlægja nöfn sín þaðan.

Meðlimir hópsins eru nú tæplega 2.200 talsins. Þar af eru enn margir þekktir einstaklingar sem tengjast stjórnmálastarfi.

Þeir eru m.a.:

  • Andrés Jónsson, almannatengill og fyrrv. formaður Ungra jafnaðarmanna
  • Auður Lilja Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VG
  • Ágúst Ólafur Ágústsson, fyrrv. alþingismaður og fyrrv. varaformaður Samfylkingarinnar
  • Álfheiður Ingadóttir, þingmaður fyrir VG
  • Árni Þór Sigurðsson, alþingismaður fyrir VG
  • Björg Eva Erlendsdóttir, fyrrv. fréttakona og nú stjórnarformaður RÚV
  • Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar
  • Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir, fyrrv. varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar og framvk.stjóri Já-Ísland sem er félag Evrópusambandssinna.
  • Dögg Pálsdóttir, lögmaður og fyrrv. varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins
  • Einar Skúlason, fyrrv. varaborgarfulltrúi Framsóknarflokksins og nú starfsmaður 365
  • Elín Hirst, fyrrv. fréttamaður hjá RÚV
  • Felix Bergsson, listamaður og formaður Hverfisfélags Samfylkingar í Vesturbæ
  • G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar og fyrrv. fréttamaður á RÚV
  • Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda og fyrrv. meðlimur í stjórnlagaráði
  • Guðmundur Steingrímsson, alþingismaður
  • Guðrún Arnardóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi
  • Hallgrímur Helgason, rithöfundur
  • Helga Vala Helgadóttir, fyrrv. varaþingmaður Samfylkingarinnar
  • Hrannar Björn Arnarson, aðstoðarmaður forsætisráðherra
  • Ingimar Karl Helgason, fyrrv. fréttamaður á Stöð 2
  • Jón Magnússon, lögmaður og fyrrv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Frjálslynda flokksins
  • Jón Þór Sturluson, lektor í viðskiptafræði við HR og fyrrv. aðst.maður Björgvins G. Sigurðssonar
  • Kjartan Valgarðsson, formaður Reykjavíkurfélags Samfylkingarinnar
  • Kolbrún Halldórsdóttir, fyrrv. umhverfisráðherra og fyrrv. þingmaður fyrir VG
  • Marínó G. Njálsson, ráðgjafi og fyrrv. formaður Hagsmunasamtaka heimilanna
  • Oddný Sturludóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar
  • Siv Friðleifsdóttir, alþingismaður fyrir Framsóknarflokkinn
  • Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi VG
  • Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leikkona
  • Valgerður Bjarnadóttir, alþingismaður fyrir Samfylkinguna
  • Vilhjálmur Þorsteinsson, fjárfestir og gjaldkeri Samfylkingarinnar
  • Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði við HÍ og fyrrv. meðlimur stjórnlagaráðs