Margir af fyrrverandi starfsmönnum Kaupþings sem fengu lán til hlutabréfakaupa hafa samið við slitastjórnina um greiðslu skuldarinnar. Búið er að gera upp upp í málum 24 fyrrum starfsmanna af alls sextíu manns sem fengu lán fyrir fall bankans haustið 2008. Mörg eru í samningaferli.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Þeir sem hafa samið hafa fengið 65 prósenta afslátt af kröfunni, af því er kemur fram í Fréttablaðinu. Í sumum tilvikum var afslátturinn hærri.

Slitastjórnin rifti um mitt síðasta ár ákvörðun stjórnar gamla Kaupþings, sem felldi niður persónulega ábyrgð starfsmanna bankans vegna hlutabréfalána. Heildarfjárhæð lána nam 32 milljörðum króna og voru 15 milljarðar með persónulegri ábyrgð. Slitastjórn Kaupþings telur að tíu fyrrverandi lykilstjórnendur bankans standi á bak við um 90 prósent lánanna.

Málin sem búið er að semja um varða starfsfólk bankans sem var persónulega ábyrgt fyrir lántökunni og þau tilvik sem lán höfðu verið færð inn í einkahlutafélög innan við sex mánuðum fyrir þrot bankans.

Stærstu málin sem varða háar lánveitingar til lykilstjórnenda Kaupþings eru fyrir dómstólum. Reiknað er með því að fyrstu dómarnir falli í mars eða apríl.

Leiðrétting:

Samkvæmt upplýsingum frá skilanefnd Kaupþings hefur verið samið við starfsmenn um að þeir greiði 65% af kröfu bankans. Þeir fái því ekki 65% afslátt af kröfunni eins og fram kemur í fréttinni hér að ofan.