Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, segir að nokkuð margir, bæði innlendir og erlendir, hafi sýnt því áhuga að kaupa Sjóvá.

Í gær var stofnað nýtt félag um vátryggingastarfsemi Sjóvár-Almennra trygginga undir nafninu Sjóvá. Glitnir og félag í hans eigu, SAT, hafa lagt 16 milljarða inn í Sjóvá og eiga samtals 91% í félaginu en Íslandsbanki á 9%.

Ríkissjóður hefur sett eignir upp á 11,6 milljarða króna inn í SAT.

Hjördís Dröfn Vilhjálmsdóttir, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, segir að söluferlið verði í höndum skilanefndar Glitnis og að vonast sé til að ríkið fái framlag sitt til baka, en það verði að koma í ljós.

Árni tekur í sama streng og segir markmiðið að það sem lagt hafi verið til rekstrarins fáist til baka. Hann segir það fara eftir aðstæðum á markaði hvenær salan fari fram. Markmiðið sé að selja sem fyrst en einnig að fá sem hæst verð.