Á Íslandi eru margir í háum stöðum í opinberri stjórnsýslu sem ekki myndu standast hæfnispróf, sagði Robert Wade, prófessor í stjórnmálahagfræði við London School of Economics, á borgarafundi í Háskólabíói í vikunni.

Hann sagði að kreppan hefði svipt hulunni af alvarlegum göllum í opinberri stjórnsýslu á Íslandi. „Sem utanaðkomandi aðila finnst mér ótrúlegt að hér sé ekki starfandi neitt í líkingu við embættismannanefnd sem fer með óháð eftirlit með hæfni þess fólks sem ráðið er til opinberrar þjónustu og fær stöðuhækkun hjá hinu opinbera," sagði hann.

„Tvennt gerist þegar slíkt óháð eftirlit er ekki til staðar. Í fyrsta lagi er fólk ráðið vegna þess að það er vinur vinar eða félagi í sama stjórnmálaflokki - án þess að vera endilega hæfast í þá stöðu," sagði hann.

„Í öðru lagi er vel hæft fólk ekki ráðið eða veitt hærri staða vegna þess að óhæfu innanbúðarfólki finnst hæfara fólk ógna sér og vill ekki að eigin vanhæfni komi í ljós."

Hann bætti því við að báðir þessir þættir sköðuðu skilvirkni opinbera geirans.

„Maður þarf ekki að eyða löngum tíma á Íslandi til að átta sig á því að hér eru margir í háum stöðum í opinberri stjórnsýslu sem myndu ekki standast hæfnispróf."