Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar á gæðum íslenska vegakerfisins eru 720 km af þeim 2.450 kílómetrum sem teknir voru fyrir með of hátt fall eða bratta við hlið vega, og slitlagsbreidd er undir 6 metrum á 1.106 kílómetrum.  Gæðamatið er unnið eftir stöðlum EuroRap og hefur Félag íslenskra bifreiðaeigenda annast matið með stuðningi Umferðarstofu fyrir hönd samgönguráðuneytisins. Nokkur fyrirtæki hafa einnig stutt verkefnið. Matið fór fram árin 2006 og 2007 og á þessu ári heldur verkefnið áfram og verða þá jarðgöng einnig metin.

Algengast er að vegirnir fái 3 stjörnur, eða 77% af vegum sem kannaðir hafa verið, 22,7% fá 2 stjörnur og mjög fáir vegarkaflar fá 4 stjörnur. Þannig fær tvöfaldi kaflinn á Reykjanesbraut 3 stjörnur en væru vegrið til beggja handa og milli akbrautanna fengi vegurinn 4 stjörnur.

Breidd vegar er víðast hvar of lítil og má nefna sem dæmi að á 1.106 af 2.450 km er slitlagsbreidd undir 6 metrum en samkvæmt stöðlum EuroRap dregur svo mjór vegur gæði og öryggi vegarins töluvert niður. Að mati FÍB er þó víða hægt að auka öryggi vegfarenda á tiltölulega einfaldan og ódýran hátt með því að fjarlægja grjót og aðrar fyrirstöður í nágrenni vega, slétta úr, fylla upp í skurði o.s.frv. Einnig er talið unnt að auka öryggi vega töluvert með því að setja upp ljósa- og skiltastaura sem brotna auðveldlega við árekstur.

Staðlað gæðamat nauðsynlegt

„Staðlað gæðamat á vegakerfinu sem hefur þann tilgang að sýna fram á beina kosti þess og galla er nauðsynlegt. Þetta er blákalt mat á því hvort vegir og önnur umferðarmannvirki eru örugg og ef svo er ekki þá er með rökum sýnt fram á hvað unnt er að gera til úrbóta. Allt miðar þetta að því að auka öryggi með því að draga úr afleiðingum hugsanlegra slysa, draga úr afleiðingum þess þegar eitthvað fer úrskeiðis, að mannvirkin auki ekki á meiðsli manna  heldur draga úr þeim,” sagði Kristján L. Möller samgönguráðherra þegar niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar.